föstudagur, október 14, 2005

Efnafræðibasl - Ljóska eða ekki ljóska?

Ég er með tvö "hefti", nokkuð þykk bæði tvö, með dæmum í efnafræði. Neðst á hverri blaðsíðu stendur svo hvaða kafla í hvaða bók (erum með 4 efnafræðibækur!!!) maður á að lesa til að geta leyst þessi dæmi. Skipulagið hjá mér virkar svo nokkurn veginn þannig að ég les kaflana og glósa aðalatriðin upp úr þeim í mitt eigið hefti (sem ég get þá lesið yfir fyrir próf á talsvert styttri tíma og mikið hnitmiðaðar en í bókinni, voða skipulag ;o). Þegar ég er svo búin með þessa yfirferð fer ég og reikna dæmin sjálf. Yfirleitt gengur það ágætlega en það hafa þó verið ákveðin dæmi sem ég bara veit ekki hvernig í ósköpunum á að vera hægt að leysa! Til að geta klárað blessuð dæmin hef ég svindlað pínu og notast við hina handhægu bók; "Kemiske Data og Oversigter" þar sem maður getur fundið alls kyns töflur og lista, og fundið svörin þar í einhverjum þeirra. Það hefur samt valdið mér svolitlum heilabrotum hvernig í ósköpunum þetta á að vera hægt, því þrátt fyrir að hafa lært kaflana nokkuð vel, og LEITAÐ vel og vandlega í þeim að aðferðunum til að leysa þetta, þá hefur það bara ekki gengið!

Fann samt svarið við því áðan hvernig við eigum að leysa öll þessi dæmi sem ég hef svindlað á. Hefði kannski átt að lesa aðeins lengra og nákvæmara á hverri blaðsíðu, því þar eru nefnilega taldar upp þær töflur og listar í Kemiske Data og Oversigter sem við eigum að styðjast við, við lausn dæmanna!

Veit ekki alveg hvort ég á að bölva minni eigin heimsku og öllum þeim tíma og sálarkvölum sem þetta hefur kostað mig, eða vera ánægð með hvað ég er nú sniðug að nýta mér öll tiltæk hjálpartól?

Smá spurning til ykkar samt í lokin:

Á ég að skipta yfir á blog.central?
Já eða nei?

fimmtudagur, október 13, 2005

Tækniguttinn kom... ...og fór án þess að ég fengi síma eða internet :o(

Náði tækniguttanum með miðanum á dyrabjöllunni. Var samt svo stressuð að ég var alltaf að vakna upp og svaf þar með nánast ekkert. Skil eiginlega ekki af hverju því þetta er nú ekki mikilvægasti hluturinn til að verða stressaður yfir!

En alla vega, hann var reyndar um fertugt, en hann var með hár en ekki ýstru. Og að auki, flottustu augu sem ég hef séð lengi ;o) Hann var mjög hjálplegur en varð samt voða skrítin á svipinn þegar ég sagði honum sólarsöguna, og gat sem sagt ekki gert mikið hérna því AUÐVITAÐ er símalínan mín tengt í 6-2!!! Skil reyndar ekki hvernig það er hægt, hélt að þar byggi K. Hartmann en hann eða hún er kannski bara ekkert með síma?

Hringdi aftur í Cybercity sem sögðu mér að ég hefði hringt þann 27. sept út af vitlausu heimilisfangi, s.s. allt mér að kenna?! Var nú ekki á að samþykkja það enda hringdi ég til að láta vita að vitlausa addressan væri ekkert vitlaus, og hef bréf frá þeim til að sanna að upphaflega addressan, sem ég gaf þeim upp, er rétt. En þetta endaði sem sagt með því að ég fæ nýjan tæknimann, á rétta addressu, og þarf ekki að borga 1000 krónurnar danskar sem það ætti að kosta. Þarf samt sem áður að bíða í ca mánuð í viðbót áður en þetta kemst allt í gagnið!

En ég hef alltaf hann Jóakim elskuna svo þetta er nú í lagi :o) Skál fyrir honum!

Að öðru samt. Komst að því að ég hafði tvíbókað mig um næstu helgi. Ásdís, kærastans hans Gunnars bróður, en nefnilega að lenda á laugardeginum og að sjálfsögðu tek ég á móti henni á flugvellinum. Hún ætlar líka að gerast burðardýr fyrir mig, alltaf gott að eiga góðar mágkonu! Hún er án efa uppáhaldsmágkonan mín, og það er ekki bara af því ég á bara einn bróður og hvorug systir mín hefur komið út úr skápnum! ;o)

En þetta þýðir samt að heimsókninni til Álaborgar er frestað um nokkuð óákveðinn tíma. Það eru samt ákveðin tímamörk, annað hvort um 2 eða 5 vikur ;o) Ég var samt farin að hlakka massa til að hitta þau en það verður þá bara enn betra þegar af verður.

Á von á íslensku 1. annar læknanemunum í mat í kvöld þannig að það er best að fara að gera eitthvað í þeim málum!

Þangað til næst!

þriðjudagur, október 11, 2005

... og ekkert meira íslenskt nammi ...

Kláraði síðasta ópalinn minn áðan. Þetta þýðir að allar nammibirgðirnar sem Stefán kom með eru búnar :´o(

Mánudagur til mæðu! ... Eða eru það þriðjudagar?!?

Jæja, það lýtur út fyrir að þessi síða ætli aðallega að verða hrakfalla- og nöldursögur héðan úr Köben. Það má samt ekki misskiljast, lífið hérna er hreint bara ágætt, svona þegar á heildina er litið. Ætla nú samt að koma með smá tuð eftir daginn ;o)

Ég er búin að panta mér internettengingu hjá fyrirtæki sem heitir Cypercity og kem til með að borga 369 DKK á mánuði fyrir ADSL tengingu og heimasíma. Ótakmarkað download innifalið, sem og "ókeypis" hringingar í heimasíma innanlands. Borga s.s. 99 krónur fyrir þann hluta, en verð víst að hafa síma til að geta fengið ADSL. Þekki reyndar alveg 3 með heimasíma hérna í Danmörku þannig að þetta á bara eftir að margborga sig ;o) En þið Þórunn og Hanna Kristín getið búist við að ég liggi bara í símanum til ykkar næstu mánuðina! (Sú 3, Nína, er dönsk og gafst mjög fljótlega upp á því að reyna að lesa bloggið mitt þannig að ég minnist ekkert á hana hérna ;o) Anyway, ég downloada þá bara þeim mun meira í staðinn og verð eins og ekta Íslendingur, ef áfengið er ókeypis þá drekkur maður þó það sé vont!

En aftur að þessu net-dæmi. Ég sem sagt pantaði þessa tengingu í gegnum netið uppi í skóla og fékk svo bréf rúmri viku síðan til að staðfesta pöntunina. Fékk reyndar tvö bréf sama daginn, annað til að staðfesta símann og hitt til að staðfesta ADSL-ið, þrátt fyrir að ég hafi verið að panta samsett tilboð á hvoru tveggja! Greinilega góðir samningar við póstinn þar á bæ!

Jæja, daginn eftir fékk ég svo 3. bréfið þar sem mér var sagt að það væri villa í heimilisfanginu mínu og ég var beðin um að hafa sambandi við þjónustuver Cybercity í síma xx xx xx xx. Frekar óheppilegt að ég var nú að panta síma hjá þeim svo ég veit ekki alveg hvernig ég átti að gera það samt (Okei, ég er með gsm hjá öðru fyrirtæki, skráðan á nafnið hennar Nínu, en hvað vita þeir um það!)

Heimilisfangið sem þeir gáfu upp sem vitlausa heimilisfangið var nú samt alveg hárrétt þannig að ég hringi í þá til að athuga hvað sé eiginlega í gangi og er þá sagt að þessi hæð sé bara ekki til! Ég veit nú samt ekki betur en ég búi þarna upp á 5. hæð (6. reyndar ef maður er íslenskur og þær eru alla vega ekki færri þegar ég labba stigana!) og segi símadömunni það. Hún ákveður að skoða þetta betur og segist senda mér bréf í næstu viku. Góðri viku seinna fæ ég svo bréfið, s.s. í gær, eftir að sambýliskona mín hafði fundið það í "óskilapóstinum" hérna í húsinu. Þá hafði blessuð símakonan gert gott betur en að trúa því að 5 hæð sé til, heldur bætti hún 6 hæðinni ofan á þetta þannig að nú fer pósturinn minn til K. Hartmann í íbúð 6-2!! Og fyrir ykkur sem eruð að velta því fyrir ykkur þá sagði ég ekki við hana 6-2! Kann sko alveg heimilisfangið mitt ;o) En tækniguttinn (sem er örugglega enginn gutti heldur miðaldra, feitur og ekki með neitt hár) á s.s. að koma á morgun á milli 08 og 16.

Hringdi aftur í Cybercity í dag og lýsti raunum mínum fyrir drengnum á hinum endanum. Hann var nú allur af vilja gerður til að hjálpa mér, hefur örugglega heyrt í gegnum símann hvílíkt fljóð var þarna á ferð ;o) en því miður er það tæknideild TDC sem sér um þessi mál svo maður verður að tilkynna "heimilisfangsbreytingar" með a.m.k. tveggja daga fyrirvara þannig að hann gat ósköp lítið gert fyrir mig. Og á milli 08 og 16:00 á morgun á ég sem sagt von á tæknimanni til að tengja símalínuna og ADSL-ið, sem kemur til með að hringja bjöllunni hjá Hartmann í 6-2. Og ég get alveg lofað ykkur því að hann verður alveg pottþétt ekki heima frekar en í kvöld og í ALLAN dag! Þannig að ég verð að vera úti á svölum (Þeim svölum sem eru skuggamegin á morgnana!!!) frá kl. 8 til 16 að fylgjast með því hvort ég sjái hvítan stóran bíl merktan TDC á ferð! Og eins og þið getið sagt ykkur sjálf kemur hann alveg pottþétt kl. 15:45, eða akkúrat á meðan ég fer á klósettið þannig að ég eyði deginum samt í að fylgjast með honum.

Ætla að setja miða á dyrabjöllurnar til að segja manninum að hringja í 5-2, en verð nú samt á nálum allan morgundaginn við að fylgjast með þessu. Og það verður væntanlega ekki alveg jafn mikið úr lærdómi og ég hafði vonað og gert ráð fyrir!


En smá góðar og skemmtilegar fréttir :o)

1) Guttinn hjá Cybercity reddaði því að ef ég missi af manninum á morgun þá þarf ég ekki að borga 695 DKK í aukagjald þegar hann kemur næst.

2) Ég er að fara til Álaborgar á föstudaginn að heimsækja Hönnu Kristínu og Óttar, Kristófer og kúluna!!! Hlakka sko alveg svona mikið til! :o)


Þið sem lesið þetta megið alveg vera duglegri að kommenta hérna. Held að þetta sé uppáhaldssetning allra á bloggsíðum hehe, en hlakka alla vega til að heyra frá ykkur ;o)

Knús og kossar

mánudagur, október 10, 2005

Ég þoli ekki...

...þegar fólk fær hlutina mína lánaða og fer svo illa með þá, og skilar þeim í þannig ástandi að ég verð að fara að gera við þá!!! Það á sem sagt við um hjólið mitt núna. Var nú ekki svo beisið fyrir, kostaði 350 krónur og var nokkurn veginn í samræmi við verð. Var samt alveg fullkomlega nothæft en þegar ég ætlaði að fara að nota það í morgun, eftir að hafa lánað það, þá var keðjan dottin af (algengt vandamál en auðvelt að laga, ef ég get það, þá geta það allir!!!) og keðjuhlífin komin eitthvert út í rassgat. Aðallega samt ofan á keðjuna þannig að nú surgar alltaf í keðjunni í hverju fótstigi/hring! Og ég er pirruð.

Efnafræðitilraunir

Er alveg að fara í efnafræðitilraunatíma númer 2 á ævinni. Þetta er eini áfanginn á önninni sem ég hef aldrei tekið að einhverju eða öllu leyti áður, en verður bara að viðurkennast að er svoldið skemmtilegur! Eini gallinn við þennan áfanga er að eftir hvern tíma verðum við að skrifa skýrslu um þetta allt saman og skila. Og það sem verra er, er að við megum ekki nota "almennt orðalag" eða segja "ég setti 2,5 mL af 0,1 M Natriumklóríði ..." heldur verðum við að nota svona fræðimannaorðalag blebleble. Gæti kannski klórað mig fram úr því á íslensku, ekki alveg að meika það á dönsku! Nógu erfitt að koma því til skila sem þarf að komast til skila samt!

Var samt svo heppin að íslensk stelpa frá Króknum sem er á 5 önn lánaði mér gömlu skýrslurnar sínar þannig að þetta reddast allt saman :) Það er nefnilega alveg ágætt að vera Íslendingur í útlöndum stundum!