föstudagur, nóvember 17, 2006

... að ferðast

Einu sinni var það skemmtilegasta sem ég gerði að ferðast með flugvél. Meira að segja í fyrra, fannst mér ennþá skemmtilegt að fljúga, þrátt við óteljandi ferðir, fram og til baka til Íslands, Englands, Írlands, Noregs og Belgíu.

Nú verð ég samt að viðurkenna að það er farið að draga þó nokkuð úr spenningnum yfir þessu. Kannski helst vegna alls tímans sem fer í að bíða.

Bíða í biðröð eftir tékk inn
Bíða í biðröð í öryggiseftirliti
Bíða eftir að það verði kallað út í vél
Bíða í biðröð eftir að komast inn í vélina
Bíða í biðröð eftir að komast út úr vélinni
Bíða eftir farangrinum
...

Í morgun var ég svo sniðug að grípa með mér hálfan liter af jógúrt, og eplasafa í fernu til að hafa með í flugið. Kveikti svo á því rétt áður en ég kom á Kastrup að fljótandi vörur eru ekki lengur vel séðar...

Hellti í mig vökvanum, og setti svo alla pennana sem ég er með í glæran plastpoka. Ég veit eiginlega ekki hvað þeir halda að þeir sjái þó ég setji pennana í plastpoka, því ef ég væri á annað borð að smygla eiturefnum í pennum þá tæku þeir hvort sem er ekkert eftir því, jafnvel þó þeir séu í glærum plastpoka!!!!

Um síðustu helgi gleymdi ég líka að setja naglalakk sem ég vissi ekki að var í tölvutöskunni í svona glæran plastpoka. Nóg af eiturefnum í því, og eflaust hægt að koma meiru sprengiefni í naglalakksglas en penna ;o)


Nú er hins vegar kominn tími á næst síðustu flugferðina, þangað til ég kem heim um jólin, það er jafnvel ástæða til þess að njóta hennar!!!

Góða helgi gott fólk, og njótið þess að vera heima hjá ykkur!


P.s.

Sú ákvörðun var tekin í gær að þann 16 desember verður farið á tónleika með TEIT hinum færeyska með Hildi Sólveigu hinni íslensku. Þeas, fara með henni, og hann að spila :o) Hef ekki heyrt eitt lag með honum, en efast ekki um að það verður gaman, þó ekki væri nema vegna félagsskaparins!!!

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

fyrsta krufningin!

Jæja, þá er ég búin í fyrsta krufningartímanum mínum.

Hélt að þetta yrði erfiðara, svona andlega, heldur en það var. Mér hefur aldrei þótt neitt mál að skoða líkamshlutana sem búið er að ganga þannig frá að aðeins vöðvar, taugar og æðar eru sjáanleg, en að skera í húð fannst mér verra, af einhverjum ástæðum (Til dæmis fyrstu handtökin í hverri aðgerð í Greys etc ;o)

Þannig að ég hélt eiginlega að þetta yrði svoldið erfitt til að byrja með, sérstaklega kannski af því að þarna erum við að vinna með heila líkama, en ekki bara eitt stykki fót eða hendi.

En svo var þetta bara gaman og áhugavert, og gagnvart manneskjunni á borðinu, þá fann ég eiginlega bara fyrir virðingu, og þakklæti í hennar garð, því það er ansi mikil fórn að gefa líkama sinn í svona lagað, alla vega í mínum augum. (samt finnst mér alveg sjálfsagt að gefa líffærin mín, og er með það skjalfest í veskinu mínu, en veit ekki hvaðan þetta kemur með hylkið ;o)

Í næsta tíma, á föstudaginn, á ég svo að leggja fram um innihald regio cupitis anterior, fossa cupitis og regio carpalis anterior. Þar sem þetta segir fæstum neitt, að þá eru þetta ca framhluti olnbogasvæðis og úlnliðssvæðis :o)

Á bara eina ferð eftir í bili, kom frá Belgíu á sun, og fer aftur þangað á föstudaginn. Strax eftir krufningu og hef líklega ekki tíma til að fara í sturtu áður en ég fer út á flugvöll... Verð mjög ánægð þegar þetta er loksins búið, er orðin ansi þreytt á þessu flakki, og ansi hætt við að þetta komi niður á einhverju öðru í staðinn...

Þannig að, nú er planið að vera uppi í skóla frá 8-18 alla virka daga, og sjá svo til með kvöldin. Vonum að það dugi ;o)

mánudagur, nóvember 13, 2006

tölvubras

ég get ekki séð png myndir í tölvunni minni :o(

Þetta þýðir meðal annars það að ég get ekki kommentað hjá neinum sem er með svona myndatexta sem spam vörn, og að ég get ekki skoðað kraks kort!

veit ekki hvort er verra...