miðvikudagur, október 26, 2005

Helgin framundan!

Fór í banka í dag og ætlaði að opna bankareikning. Með "Gula kortið" mitt í höndunum, alveg búin að afla mér upplýsinga um hvað ég þyrfti að geta opnað reikning, og 7000 dkk í reiðufé til að geta borgað húsaleiguna í leiðinni. Reyndar 8000 því ég geri ráð fyrir að maður þurfi að leggja eitthvað inn á nýja reikninga til þess að fá að stofna þá ;o)

Komst svo að því að maður þarf að hafa PASSANN sinn með sér til að geta opnað bankareikning! Virkar frekar einkennilega á mig því þetta blessaða gula kort er s.s. sjúkrasamlagskort eitthvert, gefið út af yfirvöldum um leið og þú færð kennitöluna þína, og þar með ert skráður inn í kerfið og með opinber gögn um það. En það var s.s. ekki nóg að vera bara með 5 kort, öll með nafni og mynd, nei, það verður sko að vera vegabréfið! Held reyndar að það sleppi líka með ökuskírteinið en þar sem ég hef ekki mikið verið á rúntinum hérna þá hefur það bara fengið að liggja heima. Ætla samt að gera aðra tilraun á morgun, hlýtur að takast þá!

Er annars að leggja upp í 4 daga reisu á morgun, hvorki meira né minna! Byrja á að hitta þær Ósk og Arndísi upp úr hádegi einhvers staðar hér í Köben, kaupa lestarmiða til Kolding og svo bara hoppa upp í lest og bruna af stað! Á laugardaginn held ég svo áfram til Álaborgar í heimsóknina sem átti að vera fyrir tveimur vikum en var frestað vegna tvíbókunnar ;o). Þar ætla ég að vera fram á mánudag, og samkvæmt nýjustu fréttum þá held ég að litla systir mín sé að koma í heimsókn þann daginn :o) Heyri væntanlega betur í þeim mæðgum á eftir um nánari tilhögun á þessu öllu saman! Hlakka samt massa til að fá hana í heimsókn, langt síðan maður hefur séð hana og heyrt!

En það er nóg í bili! Ætla að fara að pakka og skipuleggja hvaða skóladót ég þarf að taka með, ekki veitir af :o/

mánudagur, október 24, 2005

Google Kai

Við erum í alvöru að tala um að það skýrði einhver Svíi barnið sitt GOOGLE KAI!!!! Hvað er málið?

Belgía

Var að lenda frá Belgíu, og gerði satt að segja betri túr en ég átti von á! Vorum í skátamiðstöðinni "De Brink" sem er rétt fyrir utan Herentals en skátabjórglösin mín eru akkúrat þaðan! Það var svo sem ekki mikið gert á föstudaginn enda var fólk að týnast þangað til miðnættis, en á laugardeginum og sunnudagsmorgun var hins vegar massív vinna í gangi.

Á laugardagskvöldið var svo farið í skoðunarferð um Handvörpuna eða Antwerpen öðru nafni, og svo út að borða. Sá í fyrsta skipti rúllustiga úr TRÉ!!! í þessari skoðunarferð. Aldrei séð svona áður, og efast eiginlega um að það sé til annar svona í heiminum! Meira að segja tröppurnar sjálfar eru gerðar úr tré, og á þetta fyrirbæri uppruna sinn árið 1953. Hann er sem sagt ári yngri en mamma og pabbi en ég vissi ekki að rúllustigar væru svona gömul uppfinning! (og þá á ég ekki við að mamma og pabbi séu svona gömul heldur að ég hélt að rúllustigar væru á aldur við mig ;o) Afrekaði það líka að panta mér krækling á þessum veitingastað, sem var reyndar mjög flottur. Kræklingur er s.s. þjóðarréttur Belga svo það var nú varla annað hægt, en hann var bara nokkuð góður! Fyndið samt hvað smekkur manns breytist því mér fannst kræklingur SVO ógeðslegur bara fyrir nokkur árum! Og hvað þá ólífur, sem ég borðaði svo með bestu lyst líka á þessu sama veitingahúsi!

Gisti svo hjá Rennie og Leen, konunni hans, síðustu nóttina og hitti líka Isu, sem var með Rennie og Dimi á Íslandi á sínum tíma. Hún er bara búin að gifta sig og barn á leiðinni! Ég hugga mig við að þau eru miklu eldri en ég þannig að ég þarf ekkert að spá í þessu strax ;o)

En jæja, held að ég sé búin með það merkilegasta frá Belgíu, nema að ég er líklega að fara til Kýpur í mars :D Það er kominn tími til að maður fái að fara til einhverra nýrra landa loksins! Búin að fara að meðaltali 5 ferðir á ári undanfarin ár, en ekki komið til nýs lands síðan 2003!

Ætla að lesa aftur yfir þetta kemidót fyrir labbann á eftir en þangað til næst; Kemi rúlar!