fimmtudagur, júní 05, 2008

og sólin skín...

það er held ég bara það besta sem ég veit að vera í próflestri í júní. Tala nú ekki um þegar hitinn fer upp fyrir 25 gráður á HVERJUM EINASTA DEGI, og allir "að worka tanið" í kringum mann!

Ég hins vegar, dreg niður gardínurnar (til að halda hitanum úti) teipa á mér sára puttana, og held áfram að læra.

Sjáumst í júlí!

sunnudagur, júní 01, 2008

Laugardagur 31. maí, síðasta ferðin í bili

kl. er 06:30 og ég er komin í gegnum security check á Kastrup. Full tímanlega af því að flugið er fyrst 07:20, en það er fínt, ég næ þá að kaupa eitthvað pínu til að bæta við morgunmatinn sem var af skornum skammti.

Vá hvað maðurinn þarna er í eiturgrænum stuttbuxum. Eiginlega lítur hann meira út fyrir að vera einhver sem maður hittir á bekk á hovedbanegården en á flugvelli.

kl. orðin 06:50 og ég komin að hliðinu. Auðcitað er ekki byrjað að hleypa inn svo ég sest bara og bíð eftir hinum tveimur sem eru að fara með mér í flug. Marie IC WAGGGS og Claus IC WOSM.

Klukkan er nú orðin 7, og ég er komin í sætið mitt. Gluggasæti, þá get ég sofið í friði, án þess að einhverjir séu að klöngrast yfir mig í fluginu. Er ekki maðurinn í grænu stuttbuxunum kominn í sætið við hliðina á mér og heilsar.

Held áfram að lesa blaðið eftir að hafa heilsað honum. Legg það í sætið á milli okkar þegar ég er búin með það og segi honum að hann megi alveg lesa það ef hann hafi áhuga. Fer svo að sofa.

Er nýsofnuð þegar það er potað fast í öxlina á mér. "Heyrðu, þær eru að koma með söluvagninn". Já takk. Ég ætla ekkert að fá mér. Takk samt.

5 mínútum seinna: Aftur potað í öxlina á mér og sagt: "Þær eru komnar með vagninn". Takk, ég er búin að borða. Held áfram að reyna að sofa

1 mínútu seinna: Meira pot: "Áttu pening?" Uuuu, Nei! Bara kort. (Og þó svo væri..?)

Flugvélin að koma inn til lendingar: Enn er potað. "Við erum alveg að vera komin". Já takk. Held áfram að þykjast sofa.

Flugvélin lent, og að keyra að hliðinu: Aftur er potað: "Við erum lent". Jamm...

Flugvélin komin að hliðinu, og fólk byrjað að standa á fætur: Getiði hvað, það er potað í öxlina á mér "VIð erum komin, viltu ekki fara að taka þig til?" uuuu, nei, ég ætla að bíða þangað til röðin er farin af stað.


Var eiginlega farin að óttast að maðurinn yrði líka við hliðina á mér á leiðinni heim, og að ég yrði komin með varanlega holu í axlarvöðvana...

Komst samt heil heim, fékk að sofa á þeirri leið, og nú er það bara próflestur. Próflestur. Próflestur. Alveg það skemmtilegasta sem maður gerir í 26 stiga hita, en hvað er það nú í 3 vikur... ;o)