þriðjudagur, október 11, 2005

Mánudagur til mæðu! ... Eða eru það þriðjudagar?!?

Jæja, það lýtur út fyrir að þessi síða ætli aðallega að verða hrakfalla- og nöldursögur héðan úr Köben. Það má samt ekki misskiljast, lífið hérna er hreint bara ágætt, svona þegar á heildina er litið. Ætla nú samt að koma með smá tuð eftir daginn ;o)

Ég er búin að panta mér internettengingu hjá fyrirtæki sem heitir Cypercity og kem til með að borga 369 DKK á mánuði fyrir ADSL tengingu og heimasíma. Ótakmarkað download innifalið, sem og "ókeypis" hringingar í heimasíma innanlands. Borga s.s. 99 krónur fyrir þann hluta, en verð víst að hafa síma til að geta fengið ADSL. Þekki reyndar alveg 3 með heimasíma hérna í Danmörku þannig að þetta á bara eftir að margborga sig ;o) En þið Þórunn og Hanna Kristín getið búist við að ég liggi bara í símanum til ykkar næstu mánuðina! (Sú 3, Nína, er dönsk og gafst mjög fljótlega upp á því að reyna að lesa bloggið mitt þannig að ég minnist ekkert á hana hérna ;o) Anyway, ég downloada þá bara þeim mun meira í staðinn og verð eins og ekta Íslendingur, ef áfengið er ókeypis þá drekkur maður þó það sé vont!

En aftur að þessu net-dæmi. Ég sem sagt pantaði þessa tengingu í gegnum netið uppi í skóla og fékk svo bréf rúmri viku síðan til að staðfesta pöntunina. Fékk reyndar tvö bréf sama daginn, annað til að staðfesta símann og hitt til að staðfesta ADSL-ið, þrátt fyrir að ég hafi verið að panta samsett tilboð á hvoru tveggja! Greinilega góðir samningar við póstinn þar á bæ!

Jæja, daginn eftir fékk ég svo 3. bréfið þar sem mér var sagt að það væri villa í heimilisfanginu mínu og ég var beðin um að hafa sambandi við þjónustuver Cybercity í síma xx xx xx xx. Frekar óheppilegt að ég var nú að panta síma hjá þeim svo ég veit ekki alveg hvernig ég átti að gera það samt (Okei, ég er með gsm hjá öðru fyrirtæki, skráðan á nafnið hennar Nínu, en hvað vita þeir um það!)

Heimilisfangið sem þeir gáfu upp sem vitlausa heimilisfangið var nú samt alveg hárrétt þannig að ég hringi í þá til að athuga hvað sé eiginlega í gangi og er þá sagt að þessi hæð sé bara ekki til! Ég veit nú samt ekki betur en ég búi þarna upp á 5. hæð (6. reyndar ef maður er íslenskur og þær eru alla vega ekki færri þegar ég labba stigana!) og segi símadömunni það. Hún ákveður að skoða þetta betur og segist senda mér bréf í næstu viku. Góðri viku seinna fæ ég svo bréfið, s.s. í gær, eftir að sambýliskona mín hafði fundið það í "óskilapóstinum" hérna í húsinu. Þá hafði blessuð símakonan gert gott betur en að trúa því að 5 hæð sé til, heldur bætti hún 6 hæðinni ofan á þetta þannig að nú fer pósturinn minn til K. Hartmann í íbúð 6-2!! Og fyrir ykkur sem eruð að velta því fyrir ykkur þá sagði ég ekki við hana 6-2! Kann sko alveg heimilisfangið mitt ;o) En tækniguttinn (sem er örugglega enginn gutti heldur miðaldra, feitur og ekki með neitt hár) á s.s. að koma á morgun á milli 08 og 16.

Hringdi aftur í Cybercity í dag og lýsti raunum mínum fyrir drengnum á hinum endanum. Hann var nú allur af vilja gerður til að hjálpa mér, hefur örugglega heyrt í gegnum símann hvílíkt fljóð var þarna á ferð ;o) en því miður er það tæknideild TDC sem sér um þessi mál svo maður verður að tilkynna "heimilisfangsbreytingar" með a.m.k. tveggja daga fyrirvara þannig að hann gat ósköp lítið gert fyrir mig. Og á milli 08 og 16:00 á morgun á ég sem sagt von á tæknimanni til að tengja símalínuna og ADSL-ið, sem kemur til með að hringja bjöllunni hjá Hartmann í 6-2. Og ég get alveg lofað ykkur því að hann verður alveg pottþétt ekki heima frekar en í kvöld og í ALLAN dag! Þannig að ég verð að vera úti á svölum (Þeim svölum sem eru skuggamegin á morgnana!!!) frá kl. 8 til 16 að fylgjast með því hvort ég sjái hvítan stóran bíl merktan TDC á ferð! Og eins og þið getið sagt ykkur sjálf kemur hann alveg pottþétt kl. 15:45, eða akkúrat á meðan ég fer á klósettið þannig að ég eyði deginum samt í að fylgjast með honum.

Ætla að setja miða á dyrabjöllurnar til að segja manninum að hringja í 5-2, en verð nú samt á nálum allan morgundaginn við að fylgjast með þessu. Og það verður væntanlega ekki alveg jafn mikið úr lærdómi og ég hafði vonað og gert ráð fyrir!


En smá góðar og skemmtilegar fréttir :o)

1) Guttinn hjá Cybercity reddaði því að ef ég missi af manninum á morgun þá þarf ég ekki að borga 695 DKK í aukagjald þegar hann kemur næst.

2) Ég er að fara til Álaborgar á föstudaginn að heimsækja Hönnu Kristínu og Óttar, Kristófer og kúluna!!! Hlakka sko alveg svona mikið til! :o)


Þið sem lesið þetta megið alveg vera duglegri að kommenta hérna. Held að þetta sé uppáhaldssetning allra á bloggsíðum hehe, en hlakka alla vega til að heyra frá ykkur ;o)

Knús og kossar

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home