fimmtudagur, apríl 24, 2008

Gleðilegt sumar!

Jamm, það er víst sumardagurinn fyrsti í dag! Hafði nú ekki áttað mig á því fyrr en mamma hringdi til að óska mér gleðilegs dags. Liggur við að ég hafi fundið til söknuðar að hafa ekki farið í skrúðgöngu, en sá söknuður hvarf skjótt þegar ég hætti mér út úr húsi og fékk frostbit (eða alla vega svona næstum því ;o) á puttana, þrátt fyrir sólskinið og örugglega mun fleiri gráður en heima á Íslandi!

Petri(agar)skálarnar voru spennandi, og ef þið voruð ekki meðvituð um það áður, þá er spritt langbesta leiðin til að tryggja sýklalausar hendur. En svona undir flestum kringumstæðum er hvort sem er ekki mikið annað en stafylokokkus epidermis þar að finna, og eins og ég hef alltaf sagt: Það sem ekki drepur þig, herðir þig! (Mæli samt eindregið með handþvotti eftir klósettferðir! ;o)

Ég skilaði inn fyrsta uppkasti af BS ritgerðinni minni í dag. Verður fróðlegt að sjá hvaða comment ég fæ til baka og hversu miklu ég þarf að breyta. Á samt enn eftir að skrifa niðurstöður, og lagfæra inngang og eitthvað fleira, en samt rosalega góð tilfinning að vera komin hingað ;o)

Yfir og út, og ég vona að þið njótið öll sumarsins á Íslandi :o)

P.s. Um helgina er ég að fara til Parísar, Lissabon og Amsterdam. Í Amsterdam ætlar Jón Ingvar að taka á móti mér með þéttri dagskrá og ég er farin að hlakka til :D

mánudagur, apríl 21, 2008

fólk hefur bara ekki undan við að lesa bloggið!

Það er ekki eins og það sé ekki nóg að gerast, bara eitthvað minna um að það komist á "blað" þessa dagana.

Kom aftur frá Armeníu og það tók ekki nema 13 tíma frá því að ég lagði af stað út á flugvöll og þangað til ég var komin heim. Ég elska flugvelli! Segi samt betur frá þeirri ferð seinna.

Er síðan þá bara búin að böðlast í þessu blessaða Bs verkefni, sem ég verð að viðurkenna að hefur sífellt minnkandi áhugagildi, fara á tónleika í tívolí með Helga Hrafni og Unni (og svo einhverjum nánast óþekktum listamanni sem heitir Teitur),fara á Kökkenvandring með Naju vinkonu,
borða með Valhúsabrautarfjölskyldunni, og svo í bráðskemmtilega microbiologitilraun í dag.

Fólst í því að þvo á sér hendurnar og stinga svo puttunum í agarskálar (svona skálar til að rækta sýkla ;o) Það er að segja, einar 11 mismunandi útgáfur af handþvotti og mismunandi stigum í handþvottinum, blautar, þurrar, sápa, handspritt etc. Og þar fyrir utan, tilraun þar sem við settum puttana í E-coli skán, í gegnum mismunandi klósettpappír. (s.s. eitthvað í áttina að því að skeina sig, fyrir þá sem ekki átta sig á samhenginu ;o) Ákvað að borða ekki puttamat í kvöldmat, en afraksturinn af öllu káfinu kemur samt fyrst í ljós á morgun þegar við kíkjum aftur á skálarnar okkar ;o)

Segi ykkur frá niðurstöðunum seinna.

Farin í skriftirnar!

F.