fimmtudagur, desember 01, 2005

Dr Saxi

Eins og þið kannski munið sprakk á hjólinu mínu um daginn (helgina sem Anna María var hérna, nánar tiltekið) og byrjaði ég á því í nokkra daga að pumpa í dekkið í hvert skipti sem ég skutlaðist eitthvað. Að lokum hætti ég að nenna því, því ég þurfti orðið að stoppa á leiðinni í skólann og pumpa aftur (tekur sko <10 mín að hjóla þangað!) Síðustu daga er ég svo bara búin að labba þetta sem hefur reyndar þær leiðinlegu aukaverkanir að ég þarf að vakna ca hálftíma fyrr til að ná í skólann á tilsettum tíma og því fór ég af stað í það stórverkefni um daginn, að reyna að gera við blessað dekkið. Eftir að hafa fengið lánuð verkfæri hjá Michi og Nínu tókst mér að rífa dekkið af, og ná slöngunni úr og er búin að finna gatið í eldhúsvaskinum (á slöngunni sko, ekki vaskinum)

Jason, sem leigir hjá mér, var búinn að segja mér að hann ætti viðgerðarsett (bætur o.fl) einhvers staðar og ætlaði að finna það, en þar sem ég hef ekki séð, ja hvorki hann né viðgerðarsettið í marga daga núna (Mismunandi vinnu og lestímar) þá gafst ég upp á því að bíða eftir þessu í dag og skellti bara smá vindsængurbót á þetta með lími út TIGER. Sjáum til hvernig þetta fer allt saman, lítur samt ágætlega út þarna þar sem þetta er að þorna á eldhúsbekknum. Það eina sem ekki lítur vel út eru puttarnir á mér sem eru allir í lími :o/

Fæ samt að sofa til næstum hádegis á morgun þar sem Líney er í tímum allan morguninn og fyrsti fyrirlestur er kl. 12:00. Ætla að njóta þess í botn að sofa með góða samvisku :o)

sunnudagur, nóvember 27, 2005

Allt í föstum skorðum

Það virðast allir dagar vera eins nú orðið. Vakna á milli 7 og 8, vera mætt upp í skóla á bilinu 8-9 eftir því hvort ég á stefnumót við lesfélagann/a eða kennarann, borða kalt pasta með túnfiski og þúsund eyja sósu og koma svo heim um 11-12, kíkja aðeins á netið og skríða svo upp í rúm til að ná smá svefni fyrir næstu lotu, sem því miður er alveg eins og þessi fyrri. Og svona verður þetta nánast til 21. des en þá ætlum við Tinna Karen að hoppa upp í flugvél og koma okkur heim í JÓLAFRÍ!!! :o) Erum samt aðeins búnar að breyta út af núna. Lærðum t.d. heima hjá Líney í gær í staðinn fyrir að vera uppi í skóla! Það þarf ekki mikið til að gleðja mann ha!

Við erum samt duglegar að standa okkur í labbinu, hittumst við hornið á sjó númer 2, kl. hálf átta á miðvikudögum og löbbum í kringum sæina 4. Búnar að fara 2x núna og stefnum á að halda þessu áfram næstu sex árin eða hvað? :o)

Í gærkvöldi var julefrokost hjá bekknum mínum. Mormor, mesta gamalmennið í bekknum mínum fékk lánaða íbúð fyrrverandi kærustu sinnar og við komum öll með eitthvað til að setja á borðið og pakka. Bara alveg eins og íslenskt jólahlaðborð fyrir utan að réttirnir voru svoldið öðruvísi en maður á að venjast. Ekki mikið um lifrarkæfu á ísl. jólahlaðborði t.d. ;o) Fórum svo í singstar og ég rúllaði bekknum upp í þessu, þrátt fyrir að hafa haldið að ég væri með hinn hljóðnemann í smá tíma og skildi ekkert af hverju mér tókst ekki að halda línunni/laginu, og ekki einu sinni nálgast það þó ég væri að reyna að rétta mig af, hehe. Þarna var líka undarlegasti pakkaleikur sem ég hef farið í, teningur og glas látið ganga og ef maður fékk 6 þá fékk maður pakka. Og þar sem ég er heppin í ástum en ekki í spilum var manneskjan við hliðina á mér komin með 4 pakka en ég engann! en Svo kláruðust pakkarnir, og þá mátti maður taka af einhverjum öðrum ef maður fékk 6! Endaði með því að ég fékk loksins pakka, eftir langa mæðu, sem við áttum svo að taka upp þarna og þar sem mitt var eitthvað kex/nammi þá var það bara étið á staðnum og ekki mikið eftir af því ;o)
Ég tók samt þá ákvörðum þegar ég var að kaupa pakkann að héðan í frá ætla ég alltaf að gefa dagatalskerti í svona pakkaleiki. Veit ekki hvað ég er búin að fá mikið af ljótu jólaskrauti í gegnum tíðina, sem ég tek aldrei upp úr kössunum fyrir jól í dag! Kannist þið ekki við þetta sama? Mér finnst alla vega miklu betra að fá þá bara eitthvað sem maður getur brennt! Ég veit hins vegar ekki hvort sálfræðin hans Stefáns er búin að smitast yfir á mig því þetta hljómar svoldið eins og óskalistinn hans fyrir öll jól og afmæli -eitthvað að bíta og brenna ;o) Og fyrst ég er að tala um Stefán, þá eru bara 6 dagar í dag þangað til hann kemur !!! :o)


Í morgun var ég svo vakin af room-mateunum til að fá mér fylltar pönnukökur i morgunmat, ekki amalegt það! Nýbakaðar pönnukökur (mun þykkari en þessar sem við þekkjum þó) með alls kyns ávöxtum inní. Skreið svo aftur upp í rúm þar sem þessi 3 tíma svefn sem ég var búin að fá var ekki alveg að uppfylla svefnþarfir mínar, og lá þar þangað til ég fór á ísl. jólamarkað úti í Jónshúsi.

Það var s.s. jólamarkaður hjá íslendingafélaginu og ég keypti mér góu kúlur og lindubuff, namm namm :o) Er samt svoldið fyndið hvað allt íslenskt verður manni mikilvægt svona þegar maður er í útlöndum. Borða t.d. miklu meira af íslensku nammi heldur en ég geri nokkurn timann á Íslandi!
En við vorum búnar að ákveða að hittast þarna, Liney, Elva og Tinna Karen, og kíkja á Íslendingana og fara svo og fá okkur að borða og kíkja í bæinn á eftir. Enduðum heima hjá Elvu með Thailenskan mat og rauðvín, og ræddum andleg málefni og líknarmorð, sem voru heit málefni og ekki allir sammála þar :o) Fórum svo í bæinn en nu er gamalmennið í hópnum komið heim og ætlar að fara að sofa!

Mig vantar hins vegar góðar hugmyndir að nesti fyrir skólann,svona áður en ég breytist í túnfisk með skrúfulaga sporð. Allt vel þegið :o)

Góða nótt allir