sunnudagur, júní 04, 2006

prófalestur

nú þykist ég víst vera að læra undir próf, og þá hefur maður ekki tíma til að blogga.

Ef ég væri hins vegar, theorítískt, ekki að læra undir próf, þá myndi ég blogga um sjúklinginn sem ég var með í nótt (sem sagt í þeirri merkingu að hann var sjúklingur sem ég var að sjá um, fyrir ykkur með sauralega hugsunarháttinn).

Og þá myndi ég segja frá því hvernig þessi sjúklingur leit út eins og anorexíusjúklingur og var máttvana í samræmi við það, eða kannski hvernig fæturnir á honum voru allir úti í örum sem líkjast helst brunasárum eftir sígarettur, eða jafnvel að hann átti það til að pissa á líklegustu en aðallega samt ólíklegustu stöðum.

Og hvernig hann rauk á fætur þegar tæpur kl.t. var búinn af vaktinni minni (næturvakt s.s.) og þurfti að fara á klósettið en vildi engan veginn nota kolbu og ég að þurfti að halda ca helmingi af líkamsþyngd hans (sem var reyndar ekki mikil eins og áður kom fram) til að hann kæmist áfram en var með gleraugun og sá þess vegna ekki klósett skiltið á ganginum og hvernig sjúklingurinn ætlaði að fara inn í tvær sjúkrastofur "á klósettið" og varð alveg brjálaður þegar ég vildi ekki leyfa honum það og varð hálf ofbeldisfullur eins og var búið að segja mér að hann gæti verið.

En svo myndi ég líka segja ykkur frá því að þegar ég var loksins búin að sjá til þess að sjúklingurinn gæti losað um það sem þurfti að losa að þá varð hann hin blíðasti þó hann væri nú ekki alveg til í að fara inn í stofu aftur en samþykkti samt að það þyrfti líklega að vera í skóm til að geta farið út og fór þess vegna aftur inn í stofu með mér og mundi þá ekkert að hann hafði verið á leiðinni út svo hann lagðist bara upp í.

Og þegar mér varð sú skissa á, að minnast á lítið box sem að sjálfsögðu getur verið eldspýtustokkur og vakti þar með upp minningar um reykingar hjá gömlum eiturlyfjaneytanda sem tilkynnti með það sama að hann þyrfti á klósettið en leitaði í öllu sínu dóti áður en hann fór af stað fram, að þá kom það sér vel að þetta er akkúrat gamall eiturlyfjaneytandi því þegar við komum fram að þá mundi hann ekkert af hverju við vorum þarna svo ég sendi hann bara á klósettið og svo aftur í rúmið.

Ég myndi líka segja frá því hvernig pokinn með dótinu hans var orðinn fullur af alls kyns sjúkrahúsabúnaði og fatnaði, meðal annars grisjum og "viskustykkjum", og hvernig pennaveskið mitt var á leiðinni ofan í þennan sama poka en mér tókst samt að bjarga því. En við sama tækifæri myndi ég segja frá því að sjúklingurinn tók eftir súkkulaðihúðuðu kaffibaununum sem ég var með í dollu á borðinu og spurði um leið og hann fékk sér hvort hann mætti ekki fá eina án þess að hafa hugmynd um hvað þetta var og innbyrti því stóra kaffibaun, fulla af koffíni kl. 05:36.

Að lokum myndi ég svo segja frá því þegar ég var að svara því hvernig ég byggi og sagðist búa ein, að þá var ég spurð hvort Klás byggi ekki með mér. Ég sagði að hann væri fluttur út, en Klás er bara einn af mörgum nýfundnum vinum mínum og kærustum eftir þessa nótt. Einna magnaðast af því er samt að sjúklingurinn sagðist hafa verið farinn að sakna mín, sem er farið að láta kunnuglega í eyrum því ég virðist vera mjög kunnugleg í augum sjúklinganna minna, sem ég hef þó flesta bara hitt einu sinni og eytt með ca 8 tímum hverjum.

En af því ég nú í próflestri þá blogga ég ekki um neitt af þessu en hlæ bara með sjálfri mér af þessari eiginlega frekar skemmtilegu nótt.