mánudagur, maí 29, 2006

ólífuraunir

Öllum til mikillar undrunar, ekki síst mér sjálfri, gerðist ég ákafur ólífuaðdáandi síðla árs 2005 og hef ég síðan stundað að setja þessar grænu (ekki svartar samt) elskur í nánast hvað sem er af því sem á minn disk hefur komið. Og ef ég hef ómögulega getað sett þær í uppskriftina, þá hef ég bara borðað þær stakar með, svona til að tryggja að ég fái minn skammt!

Þegar Stefán var hérna keypti ég stóra krukku af ólífum en þar sem plássið í ískápnum var afskaplega takmarkað på grund af íslenskt lambakjöt í alls kyns útgáfum lenti krukkan inni í skáp við hliðina og hugsaði ég með mér að þar sem þær væru nú geymdar uppi í hillu í SuperBrugsen þá hlyti þetta að vera í lagi. Ég komst að því þegar ég kom heim frá Noregi að þetta var ekki í lagi, og var hvít lag yfir allri krukkunni því til áréttingar. Þrátt fyrir að hafa reynt að bjarga neðstu lögunum þá komst ég að þeirri niðurstöðu að ég myndi aldrei hafa lyst á þessu anyway svo ég endaði á að henda restinni eftir 2 daga.

Í dag keypti ég svo aðra krukku, í Nettó í þetta skiptið, og lét nægja að kaupa litla krukku, svona til að byrja með en það vildi nú ekki skemmtilegar til en svo að á leiðinni heim lak allur vökvinn úr krukkunni svo allt sem í pokanum var angar núna af ólífulykt, og þakka ég bara fyrir það að hafa sett þetta í poka en ekki í skóla/tölvubakpokann minn eins og venjulega. Best af öllu er samt að litla buddan mín og allt sem í henni var er núna eins og ein stór ólífa þannig að þegar ég dreg næst upp veskið til að borga verður það ekki danskar krónur sem afgreiðslustúlkan/drengurinn fær heldur ólífur.

Ég veit ekki ennþá hvort þetta verður endirinn á ólífuneyslu minni.

sunnudagur, maí 28, 2006

þá er það sannað

eggið kom á undan hænunni, eins og ég er reyndar búin að halda fram í mörg ár! En núna eru s.s. einhverjir menn með titla búnir að komast að þessari niðurstöðu líka, með kannski oggu lítið vísindalegri aðferðum en mínar hafa verið.

Ætlaði að setja link á þessa frétt en veit bara ekkert hvar ég fann hana, fyrst hún er ekki inni á mbl, þannig að það verður víst lítið af því!

Er annars búin að hafa það af að bæta einu landi við landalistann minn síðan í síðasta bloggi, og er það Noregur sem varð fyrir valinu. Það var reyndar af mjög praktískum ástæðum sem það var, Kusa systir var að útskrifast og er henni hér með óskað til hamingju með það :o) Ekki margir sem útskrifast aðeins 18 ára!!!
Það var annars mjög sérstakt andrúmsloft þarna, þar sem 100 nemendur frá öllum heimshornum voru að kveðjast eftir 2 ára samveru, og eiga líklega ekki eftir að sjá nema brot af hópnum framar. Enda blikuðu tár á hvörmum hvert sem litið var og ekki laust við að maður fyndi svoldið til með greyjunum :o(

Á leiðinni til baka var svo keyrt í loftköstum til að ná ferju, sem við NB misstum af. Er í fyrsta skipti sem ég heyri mömmu segja pabba að keyra hraðar og verður að viðurkennast að það er alveg úr takti við fyrri reynslu sem hefur yfirleitt verið alveg á hinn veginn ;o) En það hefur heldur aldrei leynt sér hvaðan ég hef mín hraðagen...

En við misstum s.s. af blessaðri ferjunni, komum 4 mínútum of seint, en komumst þá að því að það hefði líklega ekki skipt máli þó við hefðum komið fyrr, þar sem það voru 5 bílar á bakkanum sem höfðu ekki komist með. Hættum við að taka smá rúnt í bæinn á meðan við biðum eftir næstu ferju sem var eins gott því eftir 10 mínútur var biðstæðið orðið hálf-fullt, og pakkað eftir 20 mín. Þegar við fórum voru svo álíka margir bílar sem urðu eftir á bryggjunni og þeir sem fóru í ferjuna!!!

Ef við hefðum misst af þessari ferju hefðum við misst af fluginu okkar frá Bergen til Osló, og líklega þurft að keyra til Osló til að ná flugi áfram. Það hefði farið góður tími í það, líklega hátt í sólarhringur. og ef við hefðum þurft að keyra fyrir fjörðinn sem ferjan fór yfir, þá tók það góða 14 tíma takk fyrir!!! Einn fjörður!!!!

Þegar við komum svo yfir hinum megin, með ferju, þá var bílastæðið þar fullt, margra kílómetra biðröð að komast inn á biðstæðin, og endalaus umferð í átt að ferjunni alla leið til Bergen! Spáið í því að vera svona háður ferjum!!! Það er alla vega á hreinu að ég er ekki að fara að flytja til Eyja á næstunni!!!! (ekki að það hafi staðið til svo sem, verð víst bara hérna í Köben að dúlla mér næstu árin ;o)

En að lokum, þá er ég víst komin í framboð til Evrópustjórnar WAGGGS.

Magnað.