miðvikudagur, mars 07, 2007

Til hamingju...

Litli bróðir minn (sem er reyndar stærri en ég eins og öll litlu systkinin mín...) var að fá tilboð um fullan skólastyrk til að ljúka doktorsnámi við University of Michigan. Hann er reyndar líka búinn að fá tilboð um skólavist við Stanford, en spurning um skólastyrk þar ennþá. Ennþá stærri spurning um hvort það sé þess virði að borga 58000$ á ári fyrir að læra þar úr eigin vasa... en þá kemur reyndar Fullbright styrkurinn sem hann er búinn að fá í góðar þarfir ;o)

Til hamingju með þetta allt saman Gunnar minn, við erum öll voða stolt af þér :o)


Annars tókst mér loksins að ljúka því af að setja myndir frá Kína inn á myndasíðuna. Held að þið eigið að geta séð skýringarnar sem ég eyddi miklum tíma í að setja inn ef þið setjið á slide show...

Ætla síðan að taka út smá tuð hérna.

Hef það fyrir venju að fylgjast vel með fréttum heima í gegnum mbl.is og ruv.is, mismikið þó eftir árstíðum og öðrum verkefnum.

Undanfarið er það tvennt sem hefur vakið mikla undrun mína og furðu.

1) Mál Íslendingsins sem dó í haldi lögreglu. Sem dó reyndar ekki í haldi lögreglu heldur nokkrum dögum seinna á gjörgæslu skv. Kompásþættinum.
Nú skil ég það vel að það sé mikið áfall fyrir alla sem þar koma að máli þegar náinn ættingi og vinur deyr óvænt og vona ég að ég þurfi aldrei aftur að lenda í þeirri lífsreynslu. En að halda að lögreglan geti bara látið það afskiptalaust þegar menn ganga berserksgang og búnir að ráðast á fólk (sbr norska konu sem kom til hótelstarfsmanns og sagðist hafa orðið fyrir árás þessa manns), eða látið þá rasa út þangað til búið er að losa um skapvonskuna eða fíkniefnarússið eða hvað á í hlut, það skil ég ekki!
Ég vildi alla vega ekki búa við það að hvaða hálfviti og fífl (og þá er ég ekki að tjá mig um persónuleika þessa manns sem ég þekkti ekki neitt en virðist hafa verið hið mesta gæðablóð og góður vinur og ættingi flestum stundum nema þarna rétt áður en hann dó samkv. þeim er til þekktu...), ja eða þá hvaða gæðablóð sem er, geti tekið eitthvað rúss niður í bæ og valdið mér og öðrum líkamlegum og fjárhagslegum skaða af því að þeir/þær/þau þurfi aðeins að losa!
Og ég er eiginlega viss um að það er enginn sem vill það svona við nánari umhugsun. Alla vega er nóg kvartað undan því flestum stundum að lögreglan sé ekki nógu virk í að taka inn í og stoppa slagsmál í bænum t.d. Ég verð líka að segja fyrir mitt leyti að ekki eru þeir öfundsverðir blessaðir lögreglumennirnir okkar að þurfa að ganga beint í flasið á mönnum og konum sem á hefur runnið æði, og stoppa þá af. Til þess NB að vernda okkur hin fyrir þeim. Og þó manni finnist stundum að kannski hefði mátt beita aðeins mýkri aðferðum (búin að horfa svoldið á beinar útsendingar frá mótmælum vegna Ungdomshuset hérna í Kaupmannahöfn ;o) að þá miðast allar aðferðirnar við að ganga hreint til verks og gera viðkomandi óvirkan og ófæran um að valda sjálfum sér og öðrum skaða á sem styðstan og áhrifaríkastan hátt. Og þrátt fyrir þetta allt eru samt sem áður alltaf nokkur dæmi þar sem lögreglumenn verða fyrir miklum skaða við vinnu sína, eitthvað sem fæstar aðrar starfstéttir eiga á hættu!

2 ) Mál Íslendingsins sem er í bandarísku fangelsi. Ætla að byrja á að segja að ég horfði ekki á Kastljósþáttinn svo ef ég er að fara með einhverjar rangfærslur biðst ég fyrirfram afsökunar á því, og þið megið endilega benda mér á það þá! En alla vega virðist mér sagan vera sú að viðkomandi maður hafi farið á fyllerí, ákveðið í einhverju bríaríi að ráðast á (drepa held ég reyndar en ætla að láta duga að fullyrða að hann ákvað að ráðast á) ókunnugan mann með hafnaboltakylfu í félagi við þriðja manninn, fyrir 200 dollara! Er tekinn höndum og dæmdur í 20 ára fangelsi sem hann hefur nú afplánað 9 ár af "við hræðilegar aðstæður og vondan mat".
Ég efast ekki um að "okkar maður" lifir engu sældarlífi þarna í fangelsinu, og hef aldrei séð bandarísk fangelsi fyrir mér sem einhverja sumarleyfisdvalarstaði. Enda er það ekki tilgangur þeirra. (og ætla ég ekki út í þá umræði hvort fangelsi sé eða eigi að vera refsing eða betrun). Og ég trúi því statt og stöðugt að hann sjái eftir verkum sínum af öllu hjarta, enda varla annað hægt ef fangelsið stendst væntingar, ja eða þá ótta! Og það er líka eins gott að hann sjái eftir þessu, hvernig hefur eiginlega mannauminginn sem ráðist var á það?!?
En kommon! Er ekkert betra sem við getum eytt samúð okkar, og peningum! í? Hafa virkilega allir á Íslandi það svo gott að það versta sem við getum hugsað til er maður sem kom sjálfum sér í fangelsi með eigin ákvörðunum og gjörðum? (og ég ætla ekki einu sinni að hugsa til allra hinna fyrir utan Ísland!!!) Og mér er alveg sama þó hann hafi verið fullur!!!!
Ég hef nú alveg farið nokkrum sinnum á fyllerí og stundum gert hluti sem ég hefði svona eftir á að hyggja líklega ekki gert ef áfengi hefði ekki verið með í för. Aldrei hef ég samt verið nálægt því að ráðast á nokkurn mann, hvorki einhvern sem ég þekki eða hvað þá heldur einhvern ókunnugan! Og ef viðkomandi er bara svona allt öðru vísi persónuleiki en ég og allir hinir sem ég þekki og aldrei hafa lamið nokkurn mann á fylleríi, og missir þess vegna algerlega vit og rænu á fylleríi, er þá kannski ekki bara betra að hann sé geymdur einhvers staðar þar sem aðrir eru ekki í hættu þegar hann fer út að skemmta sér?

Til að fá útrás fyrir góðmennsku okkar, látum einstæðu foreldrana, fátæku námsmennina, öryrkjana eða góðgerðarfélögin njóta þess!

Þetta átti að vera stuttur pistill en jæja. Ef við deilum þessum niður á alla blogglausu dagana í Kína þá verður meðaltalið kannski bara gott ;o)

Væri annars gaman að heyra ykkar álit á þessum tveimur málum hérna fyrir ofan!

þriðjudagur, mars 06, 2007

smá glimp frá Kína...

Jamm, þetta erum við á kínamúrnum :o)
















En hérna sést múrinn sjálfur betur, alla vega ÖRLÍTIÐ brot af honum!!!















Svona voru langflest "klósettin" sem við notuðum í febrúarmánuði...



....og þetta er matseðillinn...















Eða svona alla vega eitt af því sem okkur bauðst. Það fer samt ekki miklum sögum af því hversu mikið við nýttum okkur það ;o)


Meira seinna!