miðvikudagur, júlí 18, 2007

Til hamingju með daginn Stefán :o)

Ástmögur minn á afmæli í dag.
Hann er á besta aldri og ætlar að njóta dagsins í faðmi fjölskyldunnar, að undanskilinni mér því ég er í Köben.

Njóttu dagsins elskan mín, og mundu að allir góðir hlutir batna með aldrinum ;o)
Hann hefur nú samt alltaf verið svo ungur í anda!!!

þriðjudagur, júlí 17, 2007

Notið hjálminn

Fyrir rúmlega þremur vikur datt ég á hjóli. Ég tognaði og marðist á fæti og var á hækjum í einhvern tíma, og eftir að þeim sleppti er ég búin að vera hölt og er enn, mér til mikils ama og leiðinda.

Í nótt vakti ég yfir konu á neurologiskri leguskurðdeild. Hún er öll marin og blá, ásamt því að hafa fjölda fleiðursára út um allan líkama. Það er hins vegar ekki ástæða þess að hún liggur inni á spítala. Hún getur sagt örfá orð, heyrir illa, er að hluta til lömuð hægra megin og hefur ekki stjórn á þvagi og saur, allt vegna heilablæðingar eftir að höfuðið á henni slóst við í fallinu.

Ég hjóla á hverjum degi. Mislangt í hvert skipti, en alltaf innan um aðra vegfarendur. Keyrandi, hjólandi eða gangandi. Oft hef ég hugsað að æ, maður ætti nú kannski að nota hjálminn sem liggur heima í vettlingakörfunni, en um leið þá nenni ég því ekki, því fyrsta lagi er það svo "hallærislegt" og í öðru lagi verður hárið á mér svo klesst undan honum...

Í dag fór ég samt og fann fram hjálminn minn.

sunnudagur, júlí 15, 2007

Ástkær föðursystir mín, Ólafía Jónsdóttir, Olla, lést á fimmtudagskvöld eftir langa og harða baráttu við krabbamein.

Hennar er sárt saknað af öllum sem þekktu hana, fyrir gæsku sína og alúð, sem endurspeglaðist í viðmóti hennar sem alltaf var fullt af hlýju en um leið svo fágað að eftir var tekið.

Minning þín lifir í hjörtum okkar.