laugardagur, febrúar 16, 2008

Heimsókn til fortíðar

Jæja, er ekki best að skrifa aðeins um heimsóknina mína?

Áður en ég fór af stað hafði ég fengið nokkuð nákvæmt update um pólitísku stöðuna í landinu svo ég var nokkuð vel meðvituð við brottföt. Eins og ég sagði síðast, að þá leit allt þokkalega vel út þarna. Húsin litu ágætlega til mjög vel út, og fólk almennt vel klætt, og samkvæmt greinilegri tísku svæðisins ;o)

Og til að byrja með var þetta bara eins og að fara í hverja aðra heimsókn, fyrir utan að vegabréfaeftirlitið tók 25 mínútur (sem var nú reyndar eingöngu fyrir mig, það fóru 3-4 í gegn hinum megin á meðan mitt vegabréf var skoðað í öreindum).

En svo komu þessi skilaboð um pappírana. "Farðu og náðu í alla pappíra sem eru uppi á herberginu hjá þér, og ALDREI skilja þá við þig." Hljómar svoldið eins og úr lélegri njósnamynd, en allt í einu var þetta orðið raunveruleikinn!

Skátahreyfingin í heiminum kennir og iðkar lýðræði, og réttindi manna eru hátt á lista yfir þau málefni sem hreyfingin berst fyrir. Þessi hugtök eru á bannlista stjórnvalda í landinu. Skátarnir þar gera sitt besta til að spila eftir sívaxandi reglugerðabunka stjórnvalda, en alltaf eru að bætast nýjar reglur við, og það sem var leyfilegt í gær, er það ekki í dag. Á sama tíma vinna þær að því að bæta samfélagið, m.a. í starfi með munaðarlausum börnum o.fl.

Þar sem ég var þarna eingöngu sem "High Profile" manneskja á vegum Evrópustjórnarinnar, og þar sem helgin snérist að miklu leyti um sjálfs-endurmat þeirra (sem að sjálfsögðu fór fram á rússnesku) þá gáfust nokkrar stundir þar sem ég í raun hafði ekki neitt að gera, nema að spjalla við hina og þessa, og fylgjast með því hvað þær væru að gera. Og það hvarflaði oftar en einu sinni að mér sú hugsun hvað við höfum það ótrúlega gott, og hvað þessar konur leggja á sig!

Ég gekk í skátana sem 9 ára barn, og er þar ennþá vegna allra þeirra skemmtilegu upplifanna og ferðalaga sem ég hef átt, ásamt auðvitað vinunum sem ég hef eignast.
Ég hef tekið þátt í söfnunum fyrir hinum og þessum góðgerðarverkefnum, og ég hef reynt að innprenta þeim börnum og unglingum sem hjá mér hafa starfað, góð gildi eftir bestu getu, og að gera þau að sjálfstæðum og góðum samfélagsþegnum, í anda stefnu okkar. Ég hef líka tekið þátt í framkvæmd á mörgum stórverkefnum innan BÍS, og lagt af mörkum ótalin hundruð ef ekki þúsundir vinnustunda í þetta allt saman, en það er ca mitt framlag til samfélagsins. I sidste ende, svo ég sletti pínu á dönsku, er ég samt að gera þetta allt vegna þess að þetta hefur verið svo ótrúlega gaman. Ég hef ekki tekið neina persónulega áhættu (nema kannski tapað smá kúli á tímabili ;o) og þó það hafi komið tímabil þar sem þetta var minna gaman en á öðrum tímabilum, þá var heildarmyndin alltaf sú sama.

Þessar konur vinna í hreyfingunni út af stórri hugsjón um það að bæta samfélagið sitt. Þetta gera þær þrátt fyrir sífellda, og sívaxandi yfirvofandi persónulega hættu. Það er fylgst með hverju skrefi samtakanna, reikningar eru yfirfarnir vandlega og fylgst með pósti og símtölum, leynt og ljóst. Það að reyna að fylgjast með síbreytilegum reglugerðum gerir þeim ennþá erfiðara fyrir, því eins og ég sagði, það sem var leyfilegt í gær er það ekki í dag. Ef þær misstíga sig veit engin hver viðbrögðin verða. Bandalagið verður auðvitað lagt niður (Bannað) sem útaf fyrir sig er sorglegt, en þó bara peanuts í samanburði við þær persónulegu afleiðingar sem þetta getur haft fyrir konurnar sem í hlut eiga.

Og þessi raunveruleiki sem ég talaði um í upphafi, hann varði eina helgi fyrir mig. Í versta falli hefði mér verið hent í fangelsi í nokkra daga, en þar sem íslensk stjórnvöld og alheimssamtök skáta hefðu hvort um sig beitt sér fyrir lausn minni hefðu afleiðingarnar aldrei orðið meiri en þessi nokkurra daga fangelsisvist og brottvísun úr landinu. Geri ekki ráð fyrir að fara margar heimsóknir þangað í viðbót svo það hefði kannski ekki breytt svo miklu anyway!
Fyrir konurnar varir raunveruleikinn lífslangt.

P.s.
Í samhengi við paranoju mína og trúnaðarskyldu tók ég út öll nöfn í þessum texta sem geta bent á viðkomandi fólk og samtök.

þriðjudagur, febrúar 12, 2008

og það er allt gott að frétta!

Jæja, það er orðið svoldið síðan ég setti inn línu hérna. Ekki af því að það hafi ekkert verið að gerast, heldur kannski frekar af því að það var bara of mikið að gerast! En í stuttu máli:

1.) Búin að fá út úr prófum. Gekk vel, orðin læknir upp í ca nára núna ;o)
2.) Fór til Sviss á fyrsta vinnufund grúbbunnar minnar sem ég er að stýra fyrir Evrópustjórnina. Eða, ég gerði heiðarlega tilraun til þess ;o) Fékk ekki að fara upp í flugvélina af því að ég var ekki með vegabréf. (Hafði spurst fyrir og fékk þau svör að ökusskírteini hefðu dugað) Var eiginlega enn fúllra eftir að hafa fengið afgreitt neyðarpassa á 45 mín (frá því að mér var hent út úr flugvélinni ;o) og borgað fyrir það 200 DKK. Keypti nýjan flugmiða daginn eftir sem kostaði meira en 200 DKK.
3.) Fór í 3 ára afmæli til Daníels.
4.) Helgi Hrafn og Unnur dvöldu hjá okkur í tæpa viku. Voru í æfingarferð fyrir tónleikaferðalagið með Teit sem þau eru að fara í. Fékk að mæta á æfingu hjá þeim lokakvöldið, og þetta hljómaði mjög vel ;o) Hlakka til að fara á tónleika um næstu helgi!
5.) Fór til fyrrum Sovétlýðveldis. Mesta menningarsjokk sem ég hef orðið fyrir. Allt voða fínt á yfirborðinu, allir voða vingjarnlegir og vel til fara, og húsakostur góður. Þangað til að mér var hvíslað að fara og ná í ALLA pappíra sem tengdust verkefninu upp á hótelherbergið mitt.
Stjórnvöld kæra sig ekki um að erlend félagasamtök séu að skipta sér af samfélaginu, og það má taka börn landsmanna af þeim ef þeir blanda sér í erlend verkefni sem þóknast ekki stjórnvöldum. Velti því svo fyrir mér hvort og hver hefði farið í gegnum töskuna mína. Verð samt eiginlega að skrifa aðra færslu um þetta seinna.
7.) Byrjaði aftur í skólanum. Verður nóg að gera þessa önnina, en sem betur fer hefur mér tekist að koma því þannig fyrir að ég fer bara 1 ferð á mánuði það sem eftir lifir annar.
6.) Fór aftur til Sviss. Núna til að fara á Evrópustjórnarfund. Var mjög gaman að vanda, og allt mun auðveldara en áður. Maður er greinilega farinn að læra á þetta ;o)
8.) Vika tvö í skólanum byrjuð. Komin þriðjudagur, og 3 utanlandsferðir fram í maí búnar að bætast við. Þar fór 1 ferð á mánuði markmiðið fyrir lítið!