Um lífið og tilveruna, og náttúruna
Af einhverjum ástæðum sér meirihluti sveitarstjórnar Skagafjarðar (samsett af Samfylkingu og Framsókn) það sem góða hugmynd að setja virkjanir í Skagafirði á aðalskipulag. Þetta mun vera gert í þeim tilgangi að fá fram skoðanir Skagfirðinga á þessu málefni, þar sem fólk getur vitanlega gert athugasemdir við slíkt skipulag áður en það er samþykkt.
Minnir mig að ég hafi lesið það einhvers staðar, eða kannski bara heyrt, að alla vega Samfylkingarhlutinn sé hvorki með né á móti virkjununum, alla vega ekki á formlegan, opinberan hátt, og því sé eini tilgangurinn að fá fram skoðanirnar, eins og áður sagði, til þess að meirihlutinn geti tekið afstöðu til virkjanna, og svo framvegis.
Hinn murrandi skagfirski almannarómur er á þá leið, að ekki eigi að virkja en ef út í það er farið sé það algert frumskilyrði að orkan verði notuð í heimahéraði. Ekki er nú mikil vöntun á rafmagni þar, alla vega ekki enn sem komið er, og ekki neitt í augsýn sem kræfist þessarar orku.
Það er hins vegar ansi hættuleg leið að nota aðalskipulag sem skoðanakönnun, því ef þetta skyldi slysast inn á skipulagið, þá er engin leið að stoppa virkjun. Ef einhverjum dettur í hug að heimta virkjun, þá er það bara "værsogú" og það er komin virkjun. Þetta á við hvort sem um er að ræða skagfirskan laxabónda eða bandarískan stóriðjujöfur sem vill byggja álver í Eyjafirði.
Við þurfum bara að kíkja yfir Vatnsskarðið til að sjá möguleikana. Stór virkjun, Blönduvirkjun á svæðinu, og orkan öll nýtt annars staðar en í héraði!
Ég var einn af stofnendum fyrsta Samfylkingarfélagsins, þ.e.a.s., ungliðahreyfingarinnar i Skagafirði sem var fyrsta formlega félagið. Í flestum málum hef ég átt samleið með flokknum en í þessu máli verð ég að vera ósammála. Með tilkomu virkjunnar myndi ásýnd hins fagra heimafjarðar míns breytast svo um munaði, þegar Héraðsvötnin myndu hverfa eða verða að smá sprænum, og uppsveitir Skagafjarðar lagðar undir uppistöðulón. (Það skal tekið fram að undirrituð er á engan hátt sérfræðingur í áhrifum vatnsaflsvirkjanna á umhverfi sitt og því er þetta ályktun tekin af fréttaflutningi og upplýsingum um aðrar virkjanir og áhrif þeirra) . Ekki er komið neitt fram sem sýnir að þetta myndi nýtast Skagfirðingum til góðs, nema þá í þann tíma sem það tæki að byggja virkjunina, engar framtíðaráætlanir þar sem orkan nýtist. Eins yrðu góðar minningar úr rafting í jökulsánnum í Skagafirði, sem njóta mikilla vinsælda hjá ferða- sem og heimamönnum, einkaeign þeirra sem eldri eru þar sem ekki yrði um slíkt að ræða í þessum smásprænum sem minnst var á hérna að ofan! Mikil uppbygging hefur farið fram í kringum rafting, og þetta skilað mörgum störfum, auk þess sem gera má ráð fyrir að þreyttir rafting ferðalangar nýti sér aðra þjónustu fyrir eða eftir raftingið og þar með enn meiri tekjum til sveitarfélagsins.
ÞAÐ ER SKAMMGÓÐUR VERMIR AÐ PISSA Í SKÓINN SINN!!!!
Ég ætla að skrifa undir mótmælalistann sem er búið að setja í gang, og hvet ykkur öll til að gera slíkt hið sama.
Til að fræðast meira um málið: www.jokulsar.org
Til að skrifa undir: sendið póst á jokulsar@hotmail.com
3 Comments:
Ó, ég er svo búin að skrifa undir!
Og alltaf á leiðinni að setja þennan link á bloggið mitt líka.
Auðvitað skrifa ég undir þetta mótmælaplagg.
Ég er líka sammála þér að það er fáránlegt að nota aðalskipulag sem skoðanakönnun. Þetta lyktar allt af því að pólitíkusarnir séu að fyrra sig ábyrgð á virkjunum.
Ég hef svo sem enga skoðun á því hvort eigi að virkja Jökulsárnar í Skagafirði eða ekki.
Hins vegar verð ég að taka undir að það að nota aðalskipulag sem skoðanakönnun er alveg einstaklega aulalegt. Þetta er eiginlega svo heimskulegt að þetta gæti ekki einu sinni gerst í skáldsögu. Ég skal taka dæmi um sambærilega þingsályktunartillögu: "Hey, prófum að taka upp dauðarefsingar við umferðarlagabrotum og sjáum hvað fólki finnst!"
Skrifa ummæli
<< Home